Menntamálaráðherra braut jafnréttislög
birt 2. júní 2020
Kærunefnd jafnréttismála hefur kveðið upp úrskurð um að Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hafi brotið gegn jafnréttislögum við skipun í embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. Í úrskurðinum kemur fram að annmarkar hafi verið á málsmeðferð og ákvarðanatöku ráðuneytisins við mat og val á umsækjendum um stöðuna. Þannig hafi menntun, reynslu af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileikar og hæfni kærandans til að tjá sig í riti verið vanmetin samanborið við þann sem ráðinn var í stöðuna. Að auki hafi verulega skort á efnislegan rökstuðning menntamálaráðherra fyrir ráðningunni og ljóst sé að karl sem skipaður var í stöðuna hafi ekki staðið kærandanum framar við ráðninguna. Þar af leiðandi hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ráðningunni og því hafi ráðherrann brotið gegn jafnréttislögum.
Áslaug Árnadóttir lögmaður á Landslögum gætti hagsmuna kærandans í málinu.