Námskeið um atvinnurekstrarbann
birt 18. ágúst 2023
Um síðustu áramót tóku gildi breytingar á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem lögfest var heimild til að beita einstaklinga atvinnurekstrarbanni en í slíku banni felst að þeim sem því sætir er óheimilt að stjórna félagi sem rekið er með takmarkaðri ábyrgð eigenda og fara með prókúru eða annað umboð slíks félags. Ýmsu er ósvarað um beitingu úrræðisins í íslenskum rétti en ljóst þykir að því verði aðeins beitt vegna alvarlegra tilvika.
Lögmannafélag Íslands stendur fyrir námskeiði þriðjudaginn 5. september nk. um atvinnurekstrarbann þar sem lögð verður sérstök áhersla á skilyrði og viðmið við beitingu úrræðisins. Kennari á námskeiðinu verður Gunnar Atli Gunnarsson, lögmaður á Landslögum, en á námskeiðinu verður meðal annars stuðst við væntanlega fræðigrein um efnið.