Stefnumarkandi dómur um brot á höfundarrétti

birt 11. nóvember 2024

Með dómi Landsréttar 10. október sl. var fallist á kröfu arkitektastofu (P) og eiganda hennar um skaða- og miskabætur úr hendi annarrar arkitektastofu (U) vegna brota þeirrar síðarnefndu á höfundarrétti þeirra fyrrnefndu.

Höfundalagabrotin fólust í þeirri háttsemi U að birta í heimildarleysi á vefsíðu sinni og Facebook-síðu ljósmyndir af hlutum byggingalistaverka sem hönnuð höfðu verið í starfsemi P.

U byggði m.a. á því að notkun myndanna hefði verið heimil með vísan til 16. gr. höfundalaga sem mælir fyrir um undantekningu frá einkarétti höfundar í tengslum við birtingu listaverka á almannafæri. Landsréttur vísaði til þess að skýra yrði undantekningarheimild 16. gr. höfundalaga þannig að henni yrði aðeins beitt í tilteknum sértilvikum, sem stríddu ekki gegn eðlilegri hagnýtingu verks og skertu ekki með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa. Þar sem notkun U hefði verið í ósamræmi við hagsmuni P félli hún utan þeirrar heimildar sem mælt væri fyrir um í 16. gr. höfundalaga. Er þetta svo vitað sé í fyrsta skipti sem reynt hefur á undantekningarheimild 16. gr. höfundalaga fyrir íslenskum dómstólum.

Við ákvörðun bóta féllst Landsréttur á með P að líta skyldi til ákveðinna liða í gjaldskrá Myndstefs sem viðmið um hæfilegt endurgjald að viðbættu álagi.  Voru bætur til P ákvarðaðar þannig að þær næmu svo gott sem tvöföldu endurgjaldi miðað við gjaldskrá Myndstefs. Er þetta svo vitað sé í fyrsta skipti sem íslenskir dómstólar fallast á að bæta álagi við hæfilegt endurgjald við ákvörðun skaðabóta vegna höfundalagabrota.

Jón Gunnar Ásbjörnsson, sérfræðingur Landslaga í hugverkarétti, rak málið fyrir hönd arkitektastofunnar P og eiganda hennar.