Ábyrgð á láni hjá LÍN ógild
birt 13. maí 2015
Með dómi Héraðsdóms Vesturlands voru tveir ábyrgðarmenn á láni hjá LÍN (Lánasjóði íslenskra námsmanna) sýknaðir af kröfum sjóðsins. Staðfesti dómurinn ákvörðun málsskotsnefndar LÍN þess efnis að brotið hafi verði gegn ákvæðum laga um ábyrgðarmenn þegar stofnað var til ábyrgðarinnar og hafi ábyrgðarmennirnir ekki verið upplýstir með fullnægjandi hætti og í samræmi við ákvæði laganna um þá áhættu sem fólst í því að takast á hendur ábyrgð á viðkomandi námsláni. Sérstaklega var horft til þess að ábyrgðarmennirnir voru ekki upplýstir um þá áhættu sem fólst í því að lánið yrði gjaldfellt ef lántaki yrði gjaldþrota, en í málinu lá fyrir að lántaki var í fjárhagsvandræðum og hafði verið gert hjá honum fleira en eitt árangurslaust fjárnám þegar til ábyrgðanna var stofnað. Ekki löngu eftir að ábyrgðarmenn gengust í ábyrgð á námsláninu varð námsmaðurinn gjaldþrota, en við það var námslán hans gjaldfellt og ábyrgðarmenn krafðir um greiðslu þess án möguleika til að taka lánið yfir og njóta þeirra kjara sem almennt gilda um námslán. Málið var af hálfu LÍN rekið sem prófmál um það hvort framkvæmd og upplýsingagjöf LÍN til ábyrgðarmanna samræmist ákvæðum laga um ábyrgðarmenn sem tóku gildi þann 4. apríl 2009.
Jóhannes Bjarni Björnsson hæstaréttarlögmaður og meðeigandi á Landslögum gætti hagsmuna ábyrgðarmannanna fyrir dómi. Landslög veita lögfræðirágjöf á sviði fjármunaréttar, þar á meðal um kröfu- og samningarétt. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl. (hildur@landslog.is).