Að mörgu er að huga við slit á sameign
birt 30. júní 2023
Í gær kvað Hæstiréttur upp dóm er varðar slit á sameign við nauðungarsölu. Skilyrði til þess að slíta sameign fasteignar með nauðungarsölu voru ekki talin uppfyllt þar sem beiðandi nauðungarsölu hafði ekki sýnt fram á að eigninni yrði skipt án þess að tjón hlytist af (ekki skipt án verulegs tjóns eða kostnaðar). Salan var því felld úr gildi og þannig fallist á kröfur sóknaraðila málsins. Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður á Landslögum flutti málið fyrir hönd sóknaraðila í Hæstarétti.
Í dómnum var vikið að ýmsum öðrum mikilvægum þáttum er varða nauðungarsölu til slita á sameign. Meðal annars kom fram að almennum reglum eignaréttar yrði beitt til að leysa úr álitaefnum um það hver nyti eignaréttar yfir viðkomandi eign og ekki væri skilyrði nauðungarsölu til slita á sameign fasteignar að afsal hefði verið gefið út ef sýnt yrði að kaupsamningur hefði verið að fullu efndur. Þá þyrfti að liggja fyrir að eignin væri í raun í sérstakri sameign aðila.
Í þessu samhengi er vert að benda á að ýmsar leiðir eru færar til þess að ná fram slitum á sameign, ef unnt er að skipta henni án þess að tjón hljótist af, svo sem með samningum eða með því að fá slík skipti viðurkennd fyrir dómstólum. Lokaniðurstaðan er sú að hver sameigenda fær til umráða og eignar hluta sameignarinnar, í samræmi við eignarhlut sinn. Sé hins vegar ekki unnt að skipta eign upp þá er hægt að selja hana innbyrðis, á frjálsum markaði eða með þvingaðri sölu, ef samningar nást ekki.