Bótaréttur tjónþola viðurkenndur að fullu með dómi Hæstaréttar vegna afleiðinga slyss í íþróttamiðstöð
birt 12. nóvember 2015
Hæstiréttur Íslands dæmdi í dag í máli umbjóðanda Landslaga sem slasaðist í íþróttmiðstöðinni á Egilsstöðum árið 2010. Slysið varð með þeim hætti að sérstakur sleði, sem er áfastur einu æfingatæki í íþróttamiðstöðinni og tjónþoli æfði í, losnaði úr stæði á lóðrétti stoð með þeim afleiðingum að sleðinn slóst í höfuð tjónþolans. Umbjóðandi Landslaga byggði á því að slysið yrði rakið til bilunar eða vanbúnaðar tækisins þar sem sleðinn hélst ekki í þeirri stillingu sem hann var festur í. Bótaskyldu var hafnað af tryggingafélaginu sem ábyrgðartryggjanda sveitarfélagsins sem fór með rekstur íþróttamiðstöðvarinnar. Héraðsdómur Austurlands komst að þeirri niðurstöðu að bótaskylda skyldi viðurkennd að hálfu. Á þá niðurstöðu féllst tjónþoli ekki og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Frétt um dóm héraðsdóms er að finna hér.
Í dómi Hæstaréttar er reifað að leggja verði ríkar skyldur á þá sem reka líkamsræktarstöðvar að gera ráðstafanir sem sanngjarnar megi teljast til að tryggja öryggi þeirra sem þangað koma. Í málinu lá fyrir að á stuttu tímabili urðu fjórir einstaklingar fyrir því að sleðinn á sama tækinu losnaði við notkun tækisins, þ.á m. umbjóðandi Landslaga. Eftir að tækið var lagað skömmu síðar hafa engin óhöpp orðið við notkun tækisins. Að mati dómsins bendir þetta til þess að búnaður tækisins hafi ekki verið í lagi.
Í dóminum er einnig reifað að fyrirsvarsmaður íþróttamiðstöðvarinnar aðhafðist ekkert þrátt fyrir að hafa verið tilkynnt um þau fjögur tilvik sem vísað er til að framan. Eftir slys umbjóðanda Landslaga fór ekki fram fullnægjandi rannsókn á tækinu sem full þörf var á að mati Hæstaréttar enda hefði slík rannsókn mátt leiða í ljós hvort búnaður tækisins var farinn að gefa sig. Í dóminum er jafnframt reifað að sökum þess að fyrirsvarsmaður íþróttamiðstöðvarinnar lét framkvæma úrbætur á tækinu þá hafi umbjóðanda Landslaga verið ókleift að sýna fram á að tækið hafi verið vanbúið. Voru tryggingafélagið og sveitarfélagið látin bera hallann af sönnun um ástand æfingatækisins á slysdegi.
Í dómi Hæstaréttar er einnig greint frá því að til var myndbandsupptaka af atvikinu. Það myndband var aftur á móti ekki varðveitt. Í dóminum segir að ekki sé útilokað að myndbandið hafi getað upplýst um tildrög slyssins. Var því ekki talin ástæða til að fella sök á umbjóðanda Landslaga vegna slyssins. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að sveitarfélagið og tryggingarfélagið sem ábyrgðartryggjandi beri óskipta skaðabótaábyrgð gagnvart umbjóðanda Landslaga vegna þess tjóns sem hann varð fyrir í slysinu árið 2010. Að auki voru hin bótaskyldu dæmd til að greiða tjónþola 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dóminn er að finna hér.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. og Sveinbjörn Claessen hdl. gættu hagsmuna tjónþola í málinu. Sveinbjörn flutti málið fyrir héraðsdómi en Vilhjálmur í Hæstarétti.
Lögmenn Landslaga eru sérhæfðir í líkamatjónsmálum og uppgjöri við tryggingarfélög. Vilji fólk kanna réttarstöðu sína er fyrsta viðtal án endurgjalds. Unnt er að bóka viðtal í síma 520-2900.