Brotið gegn réttlátri málsmeðferð í máli Ingólfs Helgasonar
birt 16. september 2021
Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði í dag í máli Ingólfs Helgasonar gegn íslenska ríkinu. Ingólfur var árið 2016 sakfelldur með dómi Hæstaréttar fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í starfi sínu sem forstjóri Kaupþings á Íslandi, en áður hafði héraðsdómur sýknað Ingólf af hluta sakargiftanna. Felur niðurstaða Mannréttindadómstólsins í sér að viðurkennd eru brot íslenska ríkisins gegn rétti Ingólfs til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ber íslenska ríkinu að greiða Ingólfi 12.000 evrur í miskabætur vegna brotanna, ásamt því sem réttur Ingólfs til að óska eftir endurupptöku sakamálsins er áréttaður. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins er mikilvæg staðfesting á því að íslenska ríkið gætti ekki með fullnægjandi hætti að mannréttindum sakborninga við málsmeðferð og efnislega úrlausn sakamálsins, sem lauk með dómi Hæstaréttar árið 2016.
Niðurstöðu dómstólsins má nálgast hér.
Grímur Sigurðsson lögmaður rak málið fyrir hönd Ingólfs hjá Mannréttindadómstólnum.