Dæmd bótaskylda gagnvart gangandi vegfarendum
birt 10. mars 2014
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur í tveimur dómum dæmt tryggingarfélagið Vörð skaðabótaskylt gagnvart hjónum sem urðu fyrir bíl í Lækjargötu. Í málinu var deilt um hvort hjónin hefðu sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að gæta ekki nægilega að því að á götunni væru tvær akreinar í sömu akstursstefnu en þegar þau gengu yfir hafði bifreið á akreininni nær þeim verið stöðvuð. Bíl sem ekið var á hinni akreininni var hins vegar ekið á þau. Mbl.is fjallar nánar um málið hér og dómana má finna á vef héraðsdómstóla.
Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að fráleitt sé að hjónin, sem höfðu neytt áfengis í gleðskap fyrr um kvöldið, hafi sjálf valdið slysinu af stórkostlegu gáleysi þó þau hafi vissulega ekki gætt allrar þeirrar varúðar er unnt var. Í dómnum er sérstaklega fjallað um að bifreiðinni sem ekið var á fólkið hafi verið ekið yfir löglegum hraða og að ökumanni hennar hafi borið að gæta sérstakrar varúðar þar sem bifreiðin á hægri akrein hafi staðnæmst á þeim gatnamótum sem fólkið var á leið yfir.
Grímur Sigurðsson hrl. og eigandi á Landslögum flutti málið fyrir hönd hjónanna. „Það er oft uppi ágreiningur um hver beri samkvæmt lögum ábyrgð á því að alvarleg slys verða en niðurstaðan ræðst alltaf af atvikum og aðstæðum í hverju máli. Þess vegna er brýnt að fólk kanni réttarstöðu sína, og það á við jafnvel þó það telji að það kunni sjálft að eiga einhverja sök á slysinu. Þessi dómur gefur skýra vísbendingu um það hvernig eigi að meta mál sem þessi, þar sem gangandi vegfarendur eiga í hlut. Taka ber þó fram að ekki liggur fyrir hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.“
Hjá Landslögum starfa lögfræðingar sem sérhæfa sig á sviði líkamstjónamála. Enginn kostnaður felst í fyrsta símtali ef fólk vill kanna hvort það kunni að eiga rétt til bóta. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Áslaug Árnadóttir, framkvæmdastjóri og eigandi hjá Landslögum (aslaug@landslog.is eða í síma 520-2900).