Dómar í máli sem lántakar höfðuðu gegn ÍL-sjóði
birt 15. febrúar 2023
Hæstiréttur kvað í dag upp dóma í máli sem lántakar höfðuðu gegn ÍL-sjóði (áður Íbúðalánasjóði). Í málinu var deilt um heimild sjóðsins til að krefja lántaka um þóknun vegna uppgreiðslu húsnæðislána þegar þau greiddu lánin upp fyrir gjalddaga.
Í dómi Hæstaréttar var ekki fallist á það með lántökum að ÍL-sjóði bæri að endurgreiða þeim uppgreiðslugjald á grundvelli laga nr. 121/1994 um uppgreiðslugjald.
Þá taldi Hæstiréttur ekki að það væri ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að ÍL-sjóður bæri fyrir sig skilmála ÍLS-veðbréfs um uppgreiðslugjald. Við mat á því hvort að skilyrði væru til ógildingar ákvæðis um uppgreiðslugjald á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 leit Hæstiréttur m.a. til þess að lántakar tóku með skýrum og ótvíræðum hætti á sig skyldu til að greiða sérstaka þóknun ef til uppgreiðslu lánsins kæmi að þeirra frumkvæði fyrir gjalddaga. Þá var litið til þess að lántakar áttu þess ítrekað kost í rafrænu umsóknarferli að kynna sér hvernig uppgreiðslugjaldið væri reiknað út. Einnig var litið til þess að lántakar nutu lægri ársvaxta en ef þau hefðu tekið lán sem ekki var með uppgreiðslugjaldi og til þess að ástæða þess að lántakar greiddu lánið upp fyrir gjalddaga var til komin vegna lækkandi vaxta á lánamarkaði sem leiddi til þess að lántakar töldu sig hafa hag af endurfjármögnun.
Áslaug Árnadóttir hæstaréttarlögmaður flutti málið fyrir hönd ÍL-sjóðs.