Dómur EFTA-dómstólsins frá 28. ágúst 2014
birt 28. ágúst 2014
EFTA-dómstóllinn kvað í dag upp dóm í máli Gunnars V. Engilbertssonar gegn Íslandsbanka, en Héraðsdómur Reykjavíkur hafði leitað ráðgefandi álits dómstólsins á fimm spurningum.
Í dómi sínum kemst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum leggi ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitanda og neytanda og að tilskipunin takmarki ekki svigrúm íslenska ríkisins til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á fyrirfram ákveðinni vísitölu, eins og vísitölu neysluverðs, að því gefnu að þeim sé lýst með skýrum hætti í samningnum.
Þá kemst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að það sé hlutverk íslenskra dómstóla að meta hvort að skilmáli sá sem deilt var um í málinu falli undir tilskipunina og ef hann teljist falla undir tilskipunina hvort að hann sé óréttmætur.
Ef íslenskir dómstólar telja að hinn umdeildi skilmáli falli undir tilskipunina setur EFTA-dómstóllinn fram skýringar á hugtakinu óréttmætur skilmáli.
EFTA-dómstóllinn kemst einnig að þeirri niðurstöðu að það sé íslenskra dómstóla að meta hvort samningsskilmála um verðtryggingu afborgana af láni til fjármögnunar á fasteignakaupum skuli teljast hafi verið lýst fyrir neytandanum með skýrum og skiljanlegum hætti í skilningi tilskipunarinnar. Það er þó ljóst að til slíks mats kemur ekki ef íslenskir dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að skilmáli sá sem deilt var um í málinu falli ekki undir tilskipun 93/13/EBE.
Áslaug Árnadóttir hdl. lögmaður á Landslögum flutti málið fyrir EFTA-dómstólnum fyrir hönd Íslandsbanka.
Nú heldur rekstur málsins áfram fyrir íslenskum dómstólum.
Dóm EFTA-dómstólsins má nálgast hér.