Dómur Hæstaréttar um fasteignamat Hörpu
birt 26. febrúar 2016
Í gær féll dómur í Hæstarétti sem sneri við niðurstöðu héraðsdóms og ógilti ákvörðun yfirfasteignamatsnefndar um fasteignamat Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss, frá árinu 2011. Var fallist á með Hörpu að sú aðferð sem beitt var við ákvörðun á matsverði hússins, svonefnt markaðsleiðrétt kostnaðarmat, endurspeglaði ekki líklegt gangverð fasteignarinnar en samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna skal matsverð fasteignar ákveðið eftir bestu fáanlegu vitneskju um gangverð sambærilegra eigna.
Var fallist á með Hörpu að líkur væru fyrir því að gangverð hússins væri svo verulega lægra en matsverð þess að við ákvörðunina hafi ekki verið fylgt fyrirmælum sem mælt er fyrir um í lögum um skráningu og mat fasteigna. Talið var að gleggri mynd fengist af líklegu gangverði hússins með því að beita svokallaðri tekjuaðferð, þar sem lagt yrði mat á þær tekjur sem hafa mætti af viðkomandi eign, heldur en þeirri matsaðferð sem beitt var. Var þó talið óhjákvæmilegt að virða húsið sérstaklega til fasteignamats þar sem litið yrði eftir föngum til þess sem húsið á sameiginlegt með öðrum eignum og nýtingu þeirra, auk þess sem höfð yrði hliðsjón af rauntekjum af því sjálfu. Yrði þá að taka tillit til þess að kvaðir hvíla á húsinu um þar skuli starfrækt tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð.
Jóhannes Karl Sveinsson hrl. flutti málið fyrir hönd Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss, fyrir Hæstarétti.
Landslög veita alhliða lögfræðirágjöf. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl. (hildur@landslog.is).