Dómur um rekstur gististaða í fjöleignarhúsi
birt 5. apríl 2016
Í gær var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur um leyfi þriggja íbúða í fjöleignarhúsi í Reykjavík til að reka í þeim leyfisskylda gistiþjónustu fyrir ferðamenn. Í málinu krafðist húsfélagið í umræddri fasteign að viðurkennt yrði með dómi að eigendum íbúðanna þriggja væri óheimilt að reka gististað án samþykkis allra íbúa í fjöleignarhúsinu. Í dómi héraðsdóms er komist að þeirri niðurstöðu að í íbúðunum væri stunduð atvinnustarfsemi með rekstri gistiþjónustu fyrir ferðamenn. Með því væru skertir hagsmunir annarra íbúa fjöleignarhússins til að fá notið eigna sinna í friði og án truflunar. Þótti sú breyting á hagnýtingu íbúðanna þriggja hafa haft svo verulegt ónæði, óþægindi og röskun í för með sér fyrir aðra eigendur eða afnotahafa hússins að nauðsynlegt var að samþykki allra eigenda lægi að baki leyfi til að reka atvinnustarfsemi á borð við þá sem gert var. Var því fallist á kröfur húsfélagsins að óheimilt væri að reka gististað í fasteigninni án samþykkis allra eigenda. Dóminn er að finna hér og umfjöllun í Kastljósi hér.
Grímur Sigurðsson hrl. fór með hagsmuni húsfélagsins í málinu.
Landslög veita alhliða lögfræðiráðgjöf, m.a. á sviði fjöleignarhúsamála. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl. (hildur@landslog.is).