Dómur um rétt til aflaheimilda við sölu skipa
birt 1. mars 2024
Landsréttur kvað í dag upp dóm þar sem fjallað var um réttinn til aflaheimilda við sölu skips. Málavextir voru þeir að á árinu 2019 var gerður kaupsamningur um fiskiskip. Eftir gerð samningsins kom í ljós að skipinu hafði verið úthlutað veiðiheimildum í makríl. Deildu aðilar um hvort veiðiheimildirnar tilheyrðu kaupanda eða seljanda skipsins. Með dómi Landsréttar var staðfest að verðmæti veiðiheimildanna var verulegt í samanburði við kaupverð skipsins. Þá þótti sannað að hvorki kaupandi né seljandi hefðu gert ráð fyrir að skipinu fylgdu veiðiheimildir við söluna. Var því á grundvelli dómafordæma fallist á að aflaheimildirnar tilheyrðu seljanda skipsins. Var seljandinn sýknaður að svo stöddu af kröfu kaupandans um útgáfu afsals fyrir skipinu, enda hafði seljandinn hvorki veitt atbeina sinn að því að færa aflaheimildirnar af skipinu né boðið fram greiðslu dráttarvaxta af kaupverðinu.
Fyrir hönd seljandans flutti málið Magnús Ingvar Magnússon lögmaður, sem sitt þriðja prófmál til öflunar málflutningsréttinda fyrir Landsrétti.