Einkahlutafélag og eigandi þess ábyrg fyrir göllum á fasteign
birt 7. febrúar 2024
Héraðsdómur Reykjaness hefur kveðið upp dóm í máli sem kaupendur fasteignar höfðuðu gegn einkahlutafélagi, sem seldi þeim nýbyggða fasteign, og þeim einstaklingi sem var eigandi og stjórnarmaður einkahlutafélagsins. Taldi héraðsdómur að fasteignin hefði verið haldin göllum við söluna þar sem steinveggir voru ekki byggðir á lóð hússins, en kaupendur máttu gera ráð fyrir slíkum veggjum af lestri kaupsamnings og annarra gagna við söluna. Voru einkahlutafélagið sem seldi fasteignina, og eigandi þess, dæmd sameiginlega bótaskyld af þessum sökum. Þá var einnig talið að seljandinn væri bótaskyldur vegna annarra galla sem voru á fasteigninni. Var fallist á með kaupendum að alls ættu þau rétt á greiðslu um 5,6 milljóna króna vegna þeirra galla sem voru á fasteigninni við söluna.
Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður flutti málið fyrir hönd kaupenda fasteignarinnar.