Endurákvörðun Ríkisskattstjóra felld úr gildi
birt 30. maí 2016
Síðastliðinn fimmtudag var kveðinn upp dómur í Hæstarétti þar sem dómi héraðsdóms var snúið og felld úr gildi endurákvörðun Ríkisskattstjóra og hendur tveimur hluthöfum í einkahlutafélagi sem hafði verið skipt á árinu 2007. Í málinu lá fyrir að áður en skiptum lauk á einkahlutafélagi hluthafanna höfðu hluthafarnir gert samning um sölu á hlutabréfum í útskipta félaginu. Deilt var um skattaleg áhrif gagnvart hluthöfum vegna þeirrar ráðstöfunar, en ríkisskattstjóri taldi að telja bæri endurgjald til þeirra sem ólögmæta úttekt fjármuna að því leyti sem útgreiðsla rúmaðist ekki innan heimilda til arðgreiðslu. Í dómi Hæstaréttar var fallist á með hluthöfunum að við skiptingu hlutafélagsins hefði hlutafé félagsins lækkað og það verið fært yfir í annað félag. Þótt hluthafarnir hefðu ráðstafað hlutnum sínum í hinu útskipta hlutafélagi áður en skipting fór formlega fram yrði greiðsla sem innt var af hendi vegna lækkunar hlutafjár við skiptinguna talinn arður, sbr. 2. málslið 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, enda hefði hún farið fram lögum samkvæmt. Var talið að hluthafarnir hefðu staðið rétt að skattskilum með greiðslu fjármagnstekjuskatts af því endurgjaldi sem þeir fengu í hendur. Felldi Hæstiréttur því úr gildi endurálagning ríkisskattstjóra á hendur hluthöfunum.
Dóm Hæstaréttar má lesa hér. Jóhannes Bjarni Björnsson hrl. fór með hagsmuni hlutahafanna í málinu.
Landslög veita alhliða lögfræðiráðgjöf, m.a. á sviði félaga- og skattaréttar. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl. (hildur@landslog.is).