Fallist á kröfu Slayer á hendur skipuleggjanda Secret Solstice
birt 2. maí 2020
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl sl. var fallist á kröfu K2 Agency Limited, umboðsfyrirtæki bandarísku þungarokkhljómsveitarinnar Slayer, á hendur skipuleggjanda tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice vegna eftirstöðva þóknunar Slayer fyrir að spila á hátíðinni í júní 2018. Málið var höfðað á hendur annars vegar Solstice Productions ehf. á grundvelli samningssambands við hjómsveitina og hins vegar fyrirsvarsmanni félagsins persónulega á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar. Málsaðilar deildu einkum um fjárhæð kröfunnar og hvort fyrirsvarsmaðurinn hefði ábyrgst greiðslu hennar persónulega með yfirlýsingu í tölvupósti sem hann sendi fyrirsvarsmanni K2 Agency. Héraðsdómur taldi að með yfirlýsingunni hefði fyrirsvarsmaður Solstice Productions ehf. lofað að greiða með eigin eigum eftirstöðvar þóknunar Slayer. Þá féllst héraðsdómur ekki á mótmæli fyrirsvarsmannsins við fjárhæð kröfunnar. Fyrirsvarsmaðurinn var dæmdur til að greiða stefnufjárhæð, 133.273,45 bandaríkjadali, með dráttarvöxtum, auk málskostnaðar að fjárhæð kr. 2.300.000.
Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður á Landslögum, rak málið fyrir hönd K2 Agency.