Fallist á kröfu Slayer
birt 13. október 2023
Með dómi Landsréttar 12. október sl. var fallist á kröfu K2 Agency Limited („K2“), umboðsfyrirtækis bandarísku þungarokkhljómsveitarinnar Slayer, á hendur félögunum Lifandi viðburðum ehf. og L Events ehf., auk eiganda þeirra, vegna eftirstöðva þóknunar Slayer fyrir að koma fram á hátíðinni í júní 2018 sem haldin var á vegum Solstice Productions ehf.
Í dómi Landsréttar er tekið undir þá niðurstöðu héraðsdóms að félögin Lifandi viðburðir ehf. og L Events ehf., ásamt félaginu Live events ehf. („L-félögin“), hafi verið rekin sem þau væru eitt félag. Þá er fallist á þann málatilbúnað K2 að náin stjórnunartengsl hafi verið á milli Solstice Productions ehf. og L-félaganna. Þannig hafi sama fólkið haldið um stjórnartauma í öllum félögunum á þeim tíma sem eignir og rekstur Solstice Productions ehf. færðust til Lifandi viðburða ehf. Engin sennileg skýring hafi verið á stofnun L-félaganna önnur en að þeim hafi verið ætlað að taka við eignum og rekstri Solstice Productions ehf., en skilja skuldirnar eftir í félaginu. Þar sem Solstice Productions ehf. hafi verið ógjaldfært þegar eignayfirfærslan átti sér stað hafi eignum félagsins verið ráðstafað með þeim hætti að hagsmunir kröfuhafa þess, þar með talið K2, voru fyrir borð bornir. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að stjórnendur félaganna sem að umræddri ráðstöfun komu hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið K2 fjártjóni sem Lifandi viðburðir ehf., L. Events ehf. og eigandi félaganna bæru ábyrgð á. Voru framangreindir aðila dæmdir til að greiða fjárkröfu K2 eins og hún var sett fram í Landsrétti, auk málskostnaðar að fjárhæð kr. 3.700.000. Framkvæmdastjóri Solstice Productions ehf. hafði áður með dómi Landsréttar 12. nóvember 2021 verið dæmdur til að greiða sömu kröfu á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar.
Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður á Landslögum, rak málin fyrir hönd K2 Agency.