Fallist á kröfu um greiðslu eftirstöðva kaupverðs
birt 3. júlí 2020
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu seljenda fasteignar um greiðslu eftirstöðva kaupverðs risíbúðar í Reykjavík og hafnað kröfum kaupenda um afslátt vegna meintra galla á eigninni.
Ágreiningur málsins snerist annars vegar um það hvort kaupendum hafi verið heimilt að halda eftir greiðslu að fjárhæð 2.000.000 króna sem greiða átti við undirritun afsals vegna galla sem kaupendur töldu vera á þaki fasteignarinnar. Hins vegar var deilt um ætlaðan greiðsludrátt kaupenda vegna 32.000.000 króna útborgunar og þar með hvort kaupendum hafi borið skylda til að greiða dráttarvexti af þeirri fjárhæð.
Kaupendur fasteignarinnar töldu að leki hefði komið fram fyrir afhendingu og héldu því fram að seljendur hefðu vitað af lekavandamálum í þakinu. Á það var ekki fallist. Þá kom fram í dóminum að annar kaupenda og fleiri hefðu skoðað geymsluloft yfir íbúðinni fyrir kaupin og urðu þá ekki varir við raka eða lekaummerki. Taldi dómurinn það benda til þess að leki fram til þess tíma hefði a.m.k. ekki verið eins mikill og síðar varð raunin. Þá var litið þess að dómkvaddur matsmaður hefði ekki talið unnt að fullyrða að lekinn hefði verið viðvarandi fyrir afhendingu á eigninni. Kaupendum tókst því ekki að sýna fram á að lekavandamál hefðu verið frá þaki eignarinnar fyrir afhendingu. Þar með var ekki sýnt fram á að seljendur hefðu vitað af lekavandamálum í þaki og vanrækt upplýsingaskyldu sína. Þá var ekki fallist á að leki frá þaki var galli í skilningi laga um fasteignakaup þar sem hann rýrði ekki verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varðaði. Var því ekki talið um galla að ræða og þar með höfðu kaupendur ekki heimild til að halda eftir kaupverði fasteignarinnar. Voru þeir því dæmdir til að greiða eftirstöðvar kaupverðsins með dráttarvöxtum.
Samkvæmt kaupsamningi skyldu kaupendur greiða 32.000.000 krónur „að loknum veðflutningi af eign [kaupanda] að Hagamel 37 […] yfir á Skaftahlíð 38, Reykjavík“. Í ákvæðinu var talinn felast samningur um gjalddaga greiðslu sem þó var háður því að skilyrði að veðflutningur hefði farið fram. Leiddi af þessu að kaupendum bar skylda til að inna greiðsluna af hendi án tilkynningar eða annarra aðgerða seljenda að framkomnu skilyrðinu.
Í niðurstöðu dómsins segir: „Með hliðsjón af fyrrgreindri grunnreglu kröfuréttar að það er skuldarans, en ekki kröfuhafa, að hafa frumkvæði að efndum peningakröfu verður þar af leiðandi að leggja til grundvallar að [kaupendum] hafi við fyrrgreindar aðstæður 20. ágúst 2018 mátt vera ljóst að áðurgreint skilyrði kaupsamningsins við [seljendur] 25. júlí 2018 var komið fram og greiðsluskylda þeirra virk frá og með næsta degi. Verður krafa [seljenda] því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði, þó þannig að miðað er við að dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 reiknist frá 21. ágúst 2018. “
Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður gætti hagsmuna seljenda í málinu.