Fallist á skilarétt í viðskiptum með blóm

birt 11. október 2020

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði þann 8. október sl. Samkaup hf. af kröfu Hverablóma ehf. um greiðslu kröfu vegna viðskipta með blóm. Aðilar málsins höfðu átt í viðskiptum með blóm frá árinu 2016 en Samkaup keyptu blóm af Hverablómum til endursölu í verslunum sínum. Höfðu Samkaup frá upphafi viðskiptanna haft skilarétt á óseldum blómum og greiddu því einungis fyrir seld blóm í viðskiptunum. Hverablóm byggðu á því í málinu að fyrirkomulag viðskipta aðila hefði tekið breytingum á árinu 2019 með þeim hætti að skilaréttur Samkaupa hefði fallið niður. Byggði fjárkrafa Hverablóma á því að greiða bæri að fullu fyrir þau blóm sem afhent hefðu verið. Afleiðing þess að Samkaup fengu ekki notið skilaréttar síns var sú að birgðastaða félagsins á blómum jókst. Samkaup töldu því að sýkna bæri félagið þar sem það ætti gagnkröfu sem næmi fjárhæð þessara birgða og væri hún hærri en stefnufjárhæð málsins. Héraðsdómur Reykjaness taldi að Hverablómum hefði ekki tekist að sanna að Samkaup hefðu samþykkt breytingu á því samkomulagi sem var í gildi milli aðila um sölu á blómum.  Féllst dómurinn því á málsástæðu Samkaupa um skuldajöfnuð og var félagið sýknað í málinu.

Af hálfu Samkaupa flutti málið Magnús Ingvar Magnússon lögmaður.