Fallist á sýknukröfu HHÍ
birt 22. nóvember 2016
Á föstudaginn var gekk dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem eigandi happdrættismiða höfðaði gegn Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ). Stefnandi málsins keypti í ágúst 2011 trompmiða á vef HHÍ og gaf þar meðal annars upp upplýsingar um greiðslukortanúmer. Í skilmálum HHÍ kom fram að miðinn yrði „gildur frá og með næsta útdrætti og öllum útdráttum þaðan í frá á meðan greiðslusamningnum er ekki sagt upp af þinni hálfu og greiðsla berst til HHÍ fyrir viðkomandi úrdrátt“. Samið var um að greiðslukort stefnanda yrði skuldfært mánaðarlega og fór skuldfærslan fram á tímabilinu 11. til 18. hvers mánaðar. HHÍ gerði 17. september 2013 tilraun til þess að skuldfæra greiðslukort mannsins fyrir útdráttinn í október 2013. Ekki tókst að skuldfæra greiðslukortið þar sem notkun kortsins var komin umfram lánamörk þann mánuðinn. Miðinn var því ekki endurnýjaður fyrir útdráttinn en í honum kom vinningur á miðanúmer mannsins. Samkvæmt þeim reglum sem gilda um þennan útdrátt, svonefndan „milljónaútdrátt“, þá fluttist fjárhæðin yfir í útdrátt í nóvember og bættist við milljónaútdráttinn þann mánuðinn. Í þeim útdrætti var dreginn út endurnýjaðaður miði og fékk sá miðaeigandi því vinninginn, auk vinnings nóvembermánaðar. Sá sem missti af vinningnum taldi að happadrættismiði sinn hefði verið gildur, þrátt fyrir að hann hefði ekki greitt fyrir endurnýjun hans fyrir útdráttinn og þar með brotið gegn skilmálum þeim er giltu er hann keypti miðann. Hann höfðaði mál á hendur HHÍ og krafðist greiðslu vinningsins. Í niðurstöðum dómsins kemur meðal annars fram að það hafi verið á ábyrgð viðskiptavinar að tryggja að unnt væri að skuldfæra greiðslukort hans fyrir endurnýjuninni, en hann hafi sjálfur getað fylgst með hvort endurnýjunin hefði verið skuldfærð áður en komið var að útdrætti. Var HHÍ sýknað af öllum kröfum miðaeigandans.
Hörður Helgi Helgason lögmaður hjá Landslögum gætti hagsmuna HHÍ í málinu. Um málið hefur verið fjallað á helstu vefmiðlum svo sem fréttavef mbl.is.
Landslög veita alhliða lögfræðiráðgjöf og annast málflutning á flestum sviðum lögfræðinngar. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl. (hildur@landslog.is).