Hæstiréttur sýknar Virðingu hf.
birt 7. apríl 2017
Fimmtudaginn 6. apríl staðfesti Hæstiréttur Íslands dóm héraðsdóms Reykjavíkur þar sem Virðing hf. var sýknuð af kröfu fyrrverandi regluvarðar fyrirtækisins um að henni yrði greidd laun á uppsagnarfresti sem tækju mið af 9 mánaða uppsagnarfresti.
Í janúar 2014 sameinuðust Auður Capital hf. og Virðing hf. undir nafni Virðingar hf. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að fækka regluvörðum hinna sameinuðu félaga út tveimur í einn. Var regluverðinum sagt upp störfum í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings þar sem kveðið var um að 3 mánaða uppsagnarfrest. Hann krafðist þess að miða ætti við 9 mánaða uppsagnarfrest og byggði kröfu sína á ummælum á leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 5/2011 um stöðu og verksvið regluvörslu fjármálafyrirtækja þar sem Fjármálaeftirlitið lýsir þeirri skoðun að heppilegt væri að uppsagnarfrestur regluvarða væri 9 mánuðir hið minnsta.
Hæstiréttur féllst á sjónarmið Virðingar hf. um að hin leiðbeinandi tilmæli hefðu ekki lagastoð í hefðbundnum skilningi og væru því ekki skuldbindandi á sama hátt og ákvæði reglugerða og reglna sem settar hefðu verið með heimild í lögum. Var því talið að það leiddi af lögmætisreglunni að Fjármálaeftirlitið hafi ekki getað með tilmælum sínum vikið til hliðar ákvæði ráðningarsamnings aðila um þriggja mánaða uppsagnarfrest. Var því Virðing hf. sýknað.
Dóm Hæstaréttar má lesa hér. Hlynur Halldórsson hrl. fór með hagsmuni Virðingar hf. í málinu fyrir héraðsdómi og fyrir Hæstarétti.
Landslög veita alhliða lögfræðiráðgjöf, m.a. ráðgjöf á sviði laga og reglna um fjármálafyrirtæki. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl. (hildur@landslog.is).