Hlynur Halldórsson fór fyrir samninganefnd um húsnæði Keiluhallarinnar
birt 27. október 2016
Hlynur Halldórsson hrl. lögmaður og eigandi Landslaga fór fyrir samninganefnd Bardagaíþróttaklúbbsins Mjölnis þegar klúbburinn samdi um leigu á húsnæði Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð til 15 ára.
Komist var að samkomulagi einni mínútu áður en uppboð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á húsnæðinu átti að hefjast.
„Þetta kom í ljós klukkan tíu í morgun, einni mínútu áður en átti að bjóða upp húsið. Það voru allir mættir til að bjóða í það og við héldum að þetta væri farið frá okkur,“ sagði Jón Viðar Arnþórsson, stjórnandi og formaður Mjölnis, í samtali við fréttavefinn mbl.is .
Mjölnir hefur lengi verið að leita að stærra húsnæði undir starfsemi sína en mikill vöxtur hefur verið hjá þessum vinsæla bardaga- og íþróttaklúbb síðustu ár. 300 manns voru skráðir í félagið þegar húsnæðið á Seljavegi var tekið í notkun árið 2011 en í dag eru iðkendur um 1.400 talsins og aðstaðan löngu sprungin utan af starfseminni.
Síðustu tvö ár hafa viðræður staðið yfir við mögulega fjárfesta um kaup á fasteigninni af fyrrum eigendum húsnæðisins og leigu Mjölnis á Öskjuhlíðinni undir starfsemi klúbbsins. Fjölmargir fjárfestar hafa komið að málinu og reynt að ná samkomulagi um kaup á fasteigninni, leigu hennar og uppbyggingu.
Síðast liðinn mánudagsmorgun bakkaði fjárfestir út úr samningaviðræðum, degi áður en lokauppboð af hálfu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu átti að fara fram á eigninni að beiðni veðhafa. Arnar Gunnlaugsson knattspyrnukappi fór fyrir fjárfestum og kom að málinu á seinni part mánudagsins. Var unnið að því að ná samningum um kaup á fasteigninni, gerð samninga við Mjölni um leigu og uppbyggingu fasteignarinnar auk þess að greiða úr hinum ýmsu flækjum sem tengdust viðskiptunum og gera Mjölni kleyft að byggja upp fyrsta flokks æfingaaðstöðu og samkomustað fyrir áhugafólk um bardagaíþróttir og líkamsrækt.
“Það eru engar ýkjur að hópurinn lagði sig hart fram og á endanum var þetta mínútu spursmál hvort það næðist að hnýta alla lausa enda áður en uppboð sýslumanns byrjaði kl. 10:00 á þriðjudagsmorgun. Það hafðist og eru aðilar hæstánægðir með niðurstöðuna,” að sögn Hlyns.
Mjölnir stefnir á að flytja inn um áramótin og opna nýja æfingastöð á nýju ári 2017.