Höfða dómsmál vegna tjóns eftir snjóflóð
birt 5. janúar 2017
Hlynur Halldórsson hrl. fer með hagsmuni manns sem lenti í slysi fyrir tveimur árum er snjóflóð sem hann kom sjálfur af stað féll yfir hann þar sem hann stundaði fjallaskíði í Gleiðarhjalla fyrir ofan Ísafjarðarbæ. Kastljós fjallaði um málið í gærkvöldi.
Tryggingafélag mannsins hafnaði öllum bótakröfum hans á grundvelli þess að snjóflóð og slík slys séu ekki bætt.
Í 69. gr. tryggingaskilmálanna segir: „Félagið bætir ekki tjón sökum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða, vatnsflóða og annarra náttúruhamfara.“
Í áliti frá Veðurstofu Íslands sem Hlynur óskaði eftir segir Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavaktar, að sjóflóðið flokkist ekki sem náttúruhamfarir þar sem það var af mannavöldum.
Í svarbréfi tryggingafélagsins þar sem bótaskyldu var hafnað sagði einnig að Viðlagatryggingar Íslands bæti munatjón í snjóflóðum. Því hafna Viðlagatryggingar því aðeins sé bætt tjón vegna náttúruhamfara. Þar sem umrætt snjóflóð hafi verið af mannavöldum væru engar bætur að fá.
Í 4. kafla tryggingaskilmálanna kemur fram að félagið greiði bætur vegna slyss sem vátryggði verður fyrir í frístundum. Þá segir jafnframt: „Með orðinu slys er hér átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama vátryggðs og gerist án vilja hans.“
Nú hefur úrskurðarnefnd í vátryggingamálum komist að þeirri niðurstöðu að slys í snjóflóði þurfi ekki að bæta óháð því af hvaða völdum flóðið fellur. Maðurinn hefur nú fengið gjafsókn til þess að fara með málið fyrir dómstóla. Hlynur telur að um prófmál sé að ræða, en hann bendir fólki á að fara yfir tryggingamál sín ef það telur sig vera tryggt og ganga úr skugga um að svo sé í raun og veru.
Landslög veita alhliða lögfræðiráðgjöf, m.a. á sviði tryggingamála. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl. (hildur@landslog.is).