Hömlur ehf., dótturfélag Landsbankans, dæmt til að greiða húsfélagi í Hafnarfirði bætur
birt 25. febrúar 2020
Hömlur ehf., dótturfélag Landsbankans, var dæmt til að greiða húsfélagi í Hafnarfirði bætur vegna galla á gluggum fjöleignarhússins. Um tvö stór fjöleignarhús er að ræða en Hömlur leystu til sín 63 af 70 íbúðum í skuldaskilum í desember 2011. Hömlur hófu að selja íbúðir fljótlega og voru þær fyrstu seldar í mars og apríl 2012. Fljótlega fór að bera á leka frá gluggum og kvörtuðu kaupendurnir við starfsmenn Hamla eða við fasteignasala sem milligöngu höfðu um sölu eignanna. Hömlur fengu smið í nokkrar íbúðir sem skipti um þéttilista í einhverjum gluggum. Það kom fljótt í ljós að þær viðgerðir héldu ekki.
Smám saman hafa lekavandamál í blokkunum verið að ágerast, mest eru vandamálin þar sem gluggar eru áveðurs en einstaka íbúðir hafa sloppið við leka – líklega vegna staðsetningar í húsinu. Húsfélagið og fasteignareigendur í húsunum fóru af stað með málarekstur árið 2016 og öfluðu matsgerðar dómkvadds matsmanns. Matsmaðurinn komst að þeirri niðurstöðu að gluggar hússins væru haldnir verulegum göllum. Í kjölfarið greiddi Tryggingamiðstöðin hf. bætur sem nam hámarki byggingastjóratryggingarinnar. Þá greiddu aðrir seljendur íbúða í húsinu bætur skv. matsgerðinni en það voru Fagtak (sem byggði húsin), Arion banki og Íslandsbanki en bankarnir höfðu einnig leyst til sín eignir í húsinu í skuldaskilum. Samtals fékk húsfélagið því greiddar bætur sem námu kr. 16.299.746,- frá þessum aðilum auk málskostnaðar.
Hömlur höfnuðu hins vegar bótaskyldu og byggðu aðallega því að matsgerðin væri haldin göllum, að ekki væri um galla að ræða, að húsfélagið gæti ekki sótt gallamál á hendur seljanda og að kröfur væru fallnar niður fyrir tómlæti eða fyrningu. Ekki var fallist á varnir Hamla og Hömlur dæmt til að greiða húsfélaginu kr. 16.023.012,- auk kr. 4.500.000,- í málskostnað.