Hér að neðan má sjá samþykktir málsóknarfélagsins.

Samþykktir

fyrir Málsóknarfélag hluthafa Landsbanka Íslands

1. gr. Nafn félagsins

Félagið er málsóknarfélag skv. 19. gr. a. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og er nafn þess Málsóknarfélag hluthafa Landsbanka Íslands.

2. gr. Heimilisfang félagsins, varnarþing o.fl.

Heimilisfang félagsins er, c/o Landslög slf. Borgartúni 26, 105 Reykjavík. Varnarþing félagsins er í Reykjavík. Félagið er almennt félag. Félagið þarf ekki að skrá í fyrirtækjaskrá.

3. gr. Tilgangur félagsins

Tilgangur félagsins er að höfða og reka dómsmál um skaðabótakröfur félagsmanna á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, kt. 190367-3479, vegna tjóns sem félagsmenn urðu fyrir sem hluthafar í Landsbanka Íslands hf., sem og innheimta á skaðabótum. Heimilt er að láta fyrst reyna á það hvort bótaskylda sé fyrir hendi í viðurkenningarmáli. Félaginu er óheimilt að starfa við annað en þann málarekstur.

Dómsmál skv. 1. mgr. skal félagið reka í eigin nafni fyrir hönd félagsmanna og í umboði þeirra. Félagið fer í hvívetna með forræði á málarekstrinum svo bindandi sé fyrir félagsmann, þar á meðal til að fella mál niður eða ljúka með dómssátt. Komi til þess að fullnægja þurfi dómi eða dómssátt skal félagið í eigin nafni leita þeirrar fullnustu fyrir hönd félagsmanna.

4. gr. Félagsmenn og atkvæðaréttur

Þrír aðilar hið minnsta skulu vera aðilar að félaginu á hverjum tíma. Þeir einir geta verið félagsmenn sem geta átt aðild að því dómsmáli sem félagið er stofnað til að reka og hafa greitt félagsgjald. Samþykki stjórnar þarf fyrir aðild að félaginu og getur stjórn synjað um aðild að félaginu telji hún það skaða hagsmuni félagsins. Stjórn félagsins getur fellt félagsmann út af félagaskrá uppfylli hann ekki skilyrði fyrir aðild að félaginu.

Við atkvæðagreiðslu í félaginu fylgir eitt atkvæði hverri krónu félagsgjalds.

5. gr. Félagsgjöld

Félagsmenn skulu við inngöngu í félagið greiða svofelld félagsgjöld sem taka mið af því hvað þeir fara með marga hluti í Landsbanka Íslands hf.:

Fjöldi hluta félagsmanns Fjárhæð félagsgjalds

100.000 hlutir eða færri Kr. 5.000,-

100.001 – 300.000 hlutir Kr. 15.000,-

300.001 – 500.000 hlutir Kr. 40.000,-

Fleiri en 500.000 hlutir 15% af nafnverði

Félagsgjald er óendurkræft og endurgreiðist ekki þó félagsmaður segi sig úr félaginu.

6. gr. Ábyrgð félagsmanna

Félagsmenn bera óskipta ábyrgð á skuldbindingum félagsins gagnvart kröfuhöfum þess.

7. gr. Stjórn félagsins og stjórnarfundir

Stjórn félagsins skal skipuð fjórum mönnum völdum á stofnfundi félagsins. Segi stjórnarmaður sig úr stjórn félagsins skulu þeir stjórnarmenn sem eftir eru velja nýjan stjórnarmann í hans stað. Stjórnin kýs sér formann og skiptir með sér verkum.

Stjórnarmenn þurfa ekki að vera félagsmenn í félaginu.

Formaður boðar til stjórnarfunda. Fund skal halda ef stjórnarmaður óskar eftir því. Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og hæfilegum fyrirvara. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns.

Stjórn félagsins tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Stjórn félagsins sér um að leita fullnustu réttinda að máli loknu ef því er að skipta. Stjórn félagsins skuldbindur það gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns fullnægjandi eða tveggja stjórnarmanna saman.

Stjórn félagsins heldur félagatal og getur það verið rafrænt og skal það vera aðgengilegt félagsmönnum. Stjórn félagsins getur falið lögmönnum þess að halda utan um félagatal þess. Upplýsingar um það hverjir eru félagsmenn eru ekki bundnar trúnaði en stjórn félagsins getur sett reglur um aðgang að upplýsingum í félagatali.

Ákvarðanir stjórnar skulu færðar í fundargerð sem staðfest skal af stjórn.

8. gr. Fyrirkomulag félagsfunda

Félagsfundur fer með æðsta vald félagsins. Fundur skal haldinn samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins. Fái stjórn skriflega kröfu frá félagsmönnum sem ráða yfir 10% atkvæða í félaginu skal hún boða til félagsfundar eigi síðar en fjórum vikum eftir að slík krafa hefur borist. Gætt skal ákvæða 2. mgr. þessarar greinar við fundarboðun.

Stjórn félagsins skal með minnst viku fyrirvara, en mest 30 daga fyrirvara, boða til félagsfundar. Nægilegt er að boða til félagsfundar með tölvupóstsendingum til félagsmanna sem hafa skráð póstfang sitt hjá félaginu og auglýsingu á heimasíðu félagsins. Dagskrá fundarins skal liggja fyrir eigi síðar en þremur dögum fyrir fundinn og birt á vefsíðu félagsins.

Á dagskrá félagsfundar eru eftirfarandi málefni tekin fyrir nema annað sé auglýst sérstaklega:

i. Skýrsla um rekstur dómsmáls.

ii. Fjárhagsleg staða félagsins staðfest af skoðunarmanni.

iii. Önnur mál sem stjórn félagsins óskar að leggja fyrir félagsmenn eða sem félagsmaður óskar eftir að verði tekið á dagskrá fundarins, hafi skrifleg ósk hans þess efnis borist til vitundar formanns stjórnar minnst fjórum sólarhringum fyrir fundinn.

Félagsfundur kýs fundarstjóra og fundarritara sem skráir fundargerð.

Við atkvæðagreiðslu í félaginu fylgir eitt atkvæði hverri krónu félagsgjalds.

Meirihluti greiddra atkvæða ræður almennt úrslitum mála á félagsfundi. Þó verða eftirtaldar ákvarðanir ekki teknar í félaginu nema samþykki minnst 2/3 hluta atkvæða á félagsfundi:

i. Breytingar á samþykktum.

ii. Að gera sátt í dómsmáli sem felur í sér eftirgjöf á kröfum.

iii. Að fella dómsmál niður eða hætta málarekstri áður en fullnaðarniðurstaða liggur fyrir.

iv. Að afturkalla málflutningsumboð fyrir félagið.

Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins eða önnur atriði sem aukinn meirihluta atkvæða þarf til að samþykkja skal aðeins tekin fyrir á félagsfundi ef efni tillögunnar hefur komið fram í dagskrá fundarins.

9. gr. Upplýsingar um málarekstur félagsins

Félagið skal halda úti vefsíðu þar sem félagsmenn geta fylgst með framgangi málsins og fengið upplýsingar um stöðu þess.

Stjórn félagsins skal taka saman kostnað af málarekstri félagsins þegar niðurstaða liggur fyrir í málinu fyrir héraðsdómi.

Félagsfundi í félaginu skal halda þegar niðurstaða héraðsdóms liggur fyrir, eða skapist sérstakt tilefni til þess að mati stjórnar. Halda skal félagsfund er niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir í málinu.

10. gr. Reikningshald félagsins – skoðunarmaður

Félagið hefur ekki sérstakt reikningsár heldur miðast reikningar félagsins við stöðu verksins á hverjum tíma. Reikningar félagsins skulu því ávallt hafa að geyma allar tekjur og gjöld sem verkinu tengjast frá stofnun til viðmiðunardags reiknings eða fjárhagsyfirlits.

Birta skal uppfærðar upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins á heimasíðu félagsins reglulega og ekki sjaldnar en einu sinni á ári. Stjórn skal fela löggiltum endurskoðanda að fara yfir reikninga félagsins.

11. gr. Slit félagsins

Félaginu skal slitið þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir í málarekstri félagsins. Eftir að allar skuldbindingar hafa verið gerðar upp í félaginu skal stjórn félagsins ráðstafa þeim fjármunum sem eftir eru til endurgreiðslu á félagsgjaldi þeirra félagsmanna sem greiddu félagsgjald sem nam 15% af nafnverði hluta. Ef fjárhæðin sem eftir stendur er óveruleg þannig að ekki standi undir kostnað að hlutast til um endurgreiðslu hluta félagsgjalda má stjórn félagsins ráðstafa eftirstöðvum félagsgjalda til góðgerðarmála.

12. gr. Samningur um málsókn

Stjórn félagsins skal semja við Landslög slf. um að annast rekstur á félaginu og skaðabótamáli þess. Er stjórninni heimilt að semja um tilhögun endurgjalds fyrir vinnu Landslaga slf. vegna reksturs málsins fyrir dómstólum auk árangurstengdra greiðslna frá hverjum félagsmanni sem nemi allt að 10% þeirra bótafjárhæðar sem félagsmenn eignast samkvæmt sátt eða dómi í málinu.

Þannig samþykkt á stofnfundi félagsins þann 19. júní 2015.

F.h. Samtaka sparifjáreigenda

F.h. Stapa lífeyrissjóðs

Vilhjálmur Bjarnason

Ólafur Kristinsson