Kristófer Acox lagði KR
birt 11. nóvember 2022
Hinn 11. nóvember sl. féll dómur í Landsrétti í launadeilu íslensks landsliðsmanns í körfuknattleik gegn fyrrverandi félagsliði sínu. Héraðsdómur hafði dæmt félagið til að greiða leikmanninum svo gott sem alla kröfu hans, eða fjárhæð kr. 3.783.056 með nánar tilteknum dráttarvöxtum, auk kr. 1.400.000 í málskostnað. Héraðsdómur hafði á hinn bóginn hafnað að greiða leikmanninum laun fyrir tímabilið 1.-13. ágúst 2020 þegar leikmaðurinn var í sumarfríi á Spáni þar sem um óheimila töku orlofs hafi verið að ræða. Félagið áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar. Leikmaðurinn gagnáfrýjaði dóminum m.a. í því skyni að fá kröfu sína til launa fyrir áðurnefnt tímabil tekna til greina. Landsréttur staðfesti að mestu niðurstöðu héraðsdóms, en þó með þeirri breytingu að rétturinn taldi leikmanninn eiga rétt til launa fyrir áðurnefnt tímabil 1.-13. ágúst 2020. Var þannig fallist á alla kröfu leikmannsins að fjárhæð samtals kr. 3.994.888 auk nánar tiltekinna dráttarvaxta. Þá dæmdi Landsréttur leikmanninum samtals kr. 3.000.000 í málskostnað vegna rekstur málsins í héraði og fyrir Landsrétti.
Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður á Landslögum, rak málið fyrir hönd leikmannsins.