Landsréttur staðfestir dóm héraðsdóms um viðmiðunartekjur
birt 17. maí 2021
Þann 14. maí sl. kvað Landsréttur upp dóm í máli pilts sem lent hafði í umferðarslysi örfáum mánuðum eftir að hann útskrifaðist úr framhaldsskóla. Viðurkennt var í málinu að við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku þyrfti að meta aðstæður hans sérstaklega en deilt var um hvaða viðmiðunartekjur bæri að styðjast við.
Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að miða bætur fyrir varanlega örorku piltsins við laun sem hann hafði fyrsta heila starfsárið eftir að hann slasaðist. Var þar með hafnað kröfu hins bótaskylda tryggingafélags um að miða við lágmarkslaun skaðabótalaga. Voru piltinum dæmdar rúmar þrjár milljónir króna til viðbótar þeim bótum sem tryggingafélagið hafði þá þegar greitt honum, auk dráttarvaxta og málskostnaðar.
Styrmir Gunnarsson hæstaréttarlögmaður flutti málið fyrir hönd piltsins.