Landsréttur staðfestir frávísun héraðsdóms vegna Hvalárvirkjunar
birt 30. mars 2020
Þann 26. mars 2020 staðfesti Landsréttur frávísun Héraðsdóms Vestfjarða á dómsmáli hluta landeigenda Drangavíkur á Ströndum á hendur VesturVerki ehf. og Árneshreppi.
Landeigendur höfðuðu mál gegn Vesturverki og Árneshreppi í lok sumars 2019 og kröfðust þess að framkvæmdaleyfi Vesturverks, fyrir framkvæmdum á Ófeigsfjarðarheiði vegna Hvalárvirkjunar, yrði fellt úr gildi sem og deiliskipulag vegna framkvæmdanna. Héraðsdómur vísaði málinu frá þann 9. janúar síðastliðinn og taldi ósannað að eigendur Drangavíkur ættu það land sem framkvæmdirnar varðar. Var frávísun Héraðsdóms kærð til Landsréttar.
Landsréttur telur sömuleiðis ósannað að eigendur Drangavíkur eigi það land sem framkvæmdirnar varða. Landeigendur hafi heldur ekki sýnt fram á röskun hagsmuna á grundvelli grenndar- eða nábýlisréttar. Að auki veiti hinar kærðu stjórnsýsluákvarðanir eingöngu heimild til að ráðast í óverulegar framkvæmdir sem ekki muni hafa varanleg áhrif. Landeigendur geti heldur ekki byggt réttindi sín á áhrifum framkvæmda á óbyggð víðerni. Landeigendur hafi því ekki sýnt nægilega fram á að þeir eigi lögvarða hagsmuni af málinu.
Ívar Pálsson lögmaður flutti málið fyrir hönd VesturVerks ehf. og var Sigurgeir Valsson lögmaður honum til fulltingis.