birt 15. febrúar 2023
Í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag birtist grein eftir Magnús Ingvar Magnússon um nýja byggingarlöggjöf í Bretlandi. Tilefni greinarinnar er ráðstefna sem nýlega var haldin um „fúsk“ í byggingariðnaði. Í greininni eru raktar stuttlega nokkrar af þeim umfangsmiklu breytingum sem átt hafa sér stað á breskri byggingarlöggjöf á undanförnum árum og lúta að eftirliti með byggingaframkvæmdum og ábyrgð á göllum á byggingum sem ætlaðar eru til íbúðar. Lagt er til að horft verði til þessara breytinga ef ráðist verði í endurskoðun á íslenskri byggingarlöggjöf hvað þetta varðar.
Greinin er svohljóðandi:
Í apríl á síðasta ári var samþykkt umfangsmikið regluverk í Bretlandi sem fól í sér heildarendurskoðun á allri löggjöf um öryggi og brunavarnir bygginga þar í landi sem og öllu eftirliti með byggingarframkvæmdum og ábyrgð byggingaraðila á annmörkum á byggingum. Endurskoðun þessa má rekja til hins svokallaða „Greenfell Tower“-bruna sem varð árið 2017 í London með þeim skelfilegu afleiðingum að 72 létu lífið. Talið var að rekja hefði mátt snögga útbreiðslu elds í byggingunni til skorts á brunavörnum í klæðningu byggingarinnar. Tilgangur lagasetningarinnar var að auka skýrleika þess lagaramma sem gilt hafði um hönnun og bygginu heimila þannig að öryggi þeirra og gæði væru tryggð til framtíðar.
Í stuttu máli fela helstu breytingar á löggjöfinni í sér:
•Með lagabreytingunni var sett á laggirnar ný stofnun sem fer með einskonar öryggiseftirlit með byggingum (Building Safety Regulator). Stofnunin fer meðal annars með yfirumsjón öryggismála og verkframkvæmda allra bygginga. Þá hefur stofnunin þvingunar- og ákvörðunarvald gagnvart byggingaraðilum sem fara ekki að settum reglum um byggingu fasteigna. Lögð er rík áhersla á það í lögunum að byggingaraðilum, hönnuðum og öðrum sem koma að byggingarframkvæmdum eða viðhaldi verði skylt að fara að öllum reglum um uppbyggingu fasteigna. Á framkvæmdartíma verður byggingaraðilum í að minnsta kosti þrígang skylt að skila inn gögnum til stofnunarinnar þar sem sýnt er með óyggjandi hætti að byggingin uppfylli allar þær kröfur sem til hennar eru gerðar.
•Lögin gilda um nýbyggingar, eldri byggingar sem og framkvæmdir við endurbætur en í lögunum eru sérstaklega skilgreindar svokallaðar hááhættubyggingar (Higher-Risk Buildings). Slíkar byggingar eru að minnsta kosti 18 metrar á hæð eða 7 hæðir og hafa að geyma að minnsta kosti tvær íbúðir. Ýmsar strangari reglur gilda um þær tegundir bygginga, en til að mynda verður eiganda slíkra hááhættubygginga skylt að tilnefna ábyrgðaraðila byggingar (Accountable Person) að byggingartíma loknum. Umræddur aðili, sem geta verið fleiri en einn, ber þá ábyrgð á eftirliti með öryggi sameignar byggingarinnar og skilar með reglulegu millibili skýrslu til nýrrar öryggiseftirlitsstofnunar um öryggisatriði byggingar og þau skref sem stigin hafa verið til þess að tryggja öryggi í og við bygginguna.
•Þá fela lögin það í sér að fyrningarfrestur tiltekinna krafna vegna galla á byggingum sem byggðar eru eftir að lögin tóku gildi lengist úr 6 árum í 15 ár. Fyrningarfrestur tiltekinna krafna vegna bygginga sem byggðar voru áður en lögin tóku gildi verður hins vegar 30 ár. Þetta er eins og gefur að skilja veruleg breyting og getur haft áhrif á starfsemi fjölda byggingaraðila.
•Lagasetningin mun þá einnig fela í sér mögulega meðábyrgð fyrirtækja sem tengjast byggingaraðila, svo sem móðurfélags, systurfélags eða annarra félaga í sömu samstæðu, á kröfum vegna galla á byggingum eða vegna vankanta á öryggisatriðum. Er þessari óvenjulegu reglu beint sérstaklega að fyrirtækjum sem stofnuð eru sem skel um byggingarverkefni sem og öðrum félögum sem fara í þrot að byggingarverkefni loknu.
Með framangreindar reglur í huga, sem eru aðeins lítið brot af þeirri lagasetningu sem nefnd hefur verið „The Building Safety Act“ í Bretlandi, er ljóst að taka á rækilega til hendinni þar í landi við að tryggja að farið sé að reglum við byggingu fasteigna sem ætlaðar eru til íbúðar þannig að öryggi og gæði heimila fólks sé tryggt. Á dögunum fór fram ráðstefna hér á landi sem haldin var til heiðurs dr. Ríkarði Kristjánssyni og fjallaði um „fúsk í byggingariðnaði“. Komu þar fram hinar ýmsu athugasemdir við vinnubrögð byggingaraðila, eftirlit með byggingu fasteigna og ábyrgðum byggingaraðila á gölluðum fasteignum. Var meðal annars kallað eftir viðbrögðum stjórnvalda hvað þetta varðar og ýmislegt nefnt í þeim efnum. Ljóst er að hin nýja breska löggjöf og hin mikla endurskoðun sem farið hefur fram þar í landi á regluverki byggingariðna ðarins gæti komið að góðum notum ef fara á í endurskoðun á þeim reglum sem hér á landi gilda um uppbyggingu og frágang fasteigna.