Sjúkratryggingum Íslands skylt að greiða bætur
birt 6. desember 2016
Á fimmtudaginn sl. var Sjúkratryggingum Íslands dæmt að greiða umbjóðanda Landslaga bætur vegna meðferðar sem honum var veitt á Landspítala háskólasjúkrahúsi (LHS). Atvik málsins voru með þeim hætti að maðurinn fékk heilablóðfall þegar hann var á ferðalagi á Ítalíu sumarið 2003. Hann var í kjölfarið fluttur með sjúkraflugi til Íslands og lagður inn á taugalækningadeild LSH. Þar var hann settur í einangrun vegna Mosa-smithættu. Einangrunin dróst vegna mistaka við sýnatöku og þá hófst ekki eiginleg meðferð eða greining á manninum fyrr en eftir að einangrun lauk en þá fékk maðurinn annað heilablóðfall. Maðurinn taldi að meðferð hans, eða öllu heldur skortur á meðferð, á LSH hefði aukið líkur á enduráfalli. Vegna annarra áfalla og veikinda leitaði maðurinn ekki til lögmanns fyrr en á árinu 2008 og var þá gerð krafa í sjúklingatryggingu fyrir hönd mannsins. Sjúkratryggingar Íslands hafnaði bótaábyrgð og taldi kröfuna fyrnda. Maðurinn höfðaði því mál og krafðist bóta úr hendi Sjúkratryggingum Íslands og íslenska ríkinu vegna þess tjóns sem hann hafði orðið fyrir vegna enduráfallsins.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að krafa mannsins hafi ekki verið fyrnd þegar gerð var krafa í sjúklingatryggingu. Þá var viðurkennd bótaskylda úr sjúklingatryggingu og manninum dæmdar bætur.
Hildur Ýr Viðarsdóttir, lögmaður á Landslögum, gætti hagsmuna mannsins.
Landslög veita alhliða lögfræðiráðgjöf vegna skaðabótamála. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga eru veittar í síma 520-2900.