Skaðabætur vegna slyss í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
birt 16. maí 2013
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Sjóvá-Almennar tryggingar til að greiða 62 ára gamalli konu tæpar fimm milljónir króna auk vaxta og málskostnaðar vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku sem rekja má til slyss sem hún varð fyrir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 8. mars 2007. Konan slasaðist á hnjám þegar hún rann til og féll fram fyrir sig í innritunarsal flugstöðvarinnar.
Í niðurstöðu dómsins segir að fullsannað sé að meginorsök þess að konan datt hafi verið sú að gólfið í flugstöðinni var hált af steinryki, sem ekki hafi verið auðvelt að sjá vegna eðlis þess og slæmra birtuskilyrða inni í flugstöðinni. Ekki hafi verið gerðar nægilegar ráðstafanir til að tryggja að slysahætta skapaðist ekki vegna framkvæmda sem starfsmenn vissu að hefði í för með sér rykmengun sem gerði það að verkum að gólfið sem fjöldi manns fór um á umræddum tíma dagsins varð hált. Konan hafi hins vegar mátt gera ráð fyrir því að gólfið inni í flugstöðinni væri ekki hált og haga göngulagi sínu í samræmi við það.
Grímur Sigurðsson hrl. á Landslögum fór með málið fyrir hönd tjónþola.