Slysabætur dæmdar vegna flugslyss
birt 13. maí 2015
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 8. maí 2015 í máli nr. E-3608/2014 var Tryggingamiðstöðin hf. dæmd til að greiða umbjóðanda Landslaga tæplega 8,5 milljónir króna í slysabætur auk dráttarvaxta og málskostnaðar vegna afleiðinga flugslyss sem tjónþoli lenti í árið 2009.
Slysið atvikaðist með þeim hætti að annar vængur flugvélar, sem umbjóðandi Landslaga sat í, rakst í rafmagnslínu sem lá yfir Selá í Selárdal nærri Vopnafirði, með þeim afleiðingum að hún rakst í jörðina. Umbjóðandi Landslaga slasaðist alvarlega og krafði Tryggingamiðstöðina hf. um slysabætur á grundvelli slysatryggingar flugmanna. Vátryggingarfélagið hafnaði bótaskyldu alfarið og taldi að umbjóðandi Landslaga hefði með stórkostlega gálausri háttsemi sinni orsakað slysið og með því fyrirgert bótarétti sínum. Á þessa niðurstöðu féllst umbjóðandi Landslaga ekki og beindi höfnun tryggingarfélagsins til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem komst að þeirri niðurstöðu að tjónið skyldi bætt að 1/3 hluta.
Fyrir dómi krafðist umbjóðandi Landslaga þess að Tryggingamiðstöðin yrði dæmd til að greiða honum fullar bætur samkvæmt vátryggingarsamningi og vátryggingarskilmálum. Umbjóðandi Landslaga byggði á því að vátryggingarfélaginu hefði ekki tekist sönnun þess að hann hefði valdið slysinu með háttsemi sem jafna má til stórkostlegs gáleysis. Í niðurstöðukafla dómsins segir að þótt það tíðkist að fljúga lágflug þá sé slík hegðun, sem fer gegn skráðum reglum um lágmarksflughæð, gáleysisleg og ámælisverð. Aftur á móti taldi dómurinn að það eitt að fljúga undir lágmarksflughæð feli ekki endilega í sér stórkostlegt gáleysi í skilningi laga. Þegar litið væri til þess hvernig slysið bar að í ljósi óvenjulegrar stöðu rafmagnslínunnar, aðstæðna á vettvangi og atvika að öðru leyti, féllst dómurinn ekki á það með Tryggingamiðstöðinni hf. að í háttsemi umbjóðanda Landslaga hafi falist slíkt gáleysi að bótaréttur hans yrði skertur á grundvelli laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga vegna stórkostlegs gáleysis.
Höfuðstóll dæmdra bóta nam tæplega 8,5 milljónum króna auk almennra vaxta og dráttarvaxta. Tryggingamiðstöðin hf. einnig dæmd til að greiða umbjóðanda Landslaga málskostnað. Ekki liggur fyrir hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.
„Mál þetta undirstrikar nauðsyn þess að einstaklingar njóti ætíð lögfræðiráðgjafar við uppgjör slysamála við tryggingarfélög” segir Sveinbjörn Claessen hdl. sem flutti málið fyrir hönd tjónþola.
Lögmenn Landslaga eru sérhæfðir í líkamstjónsmálum og uppgjöri við tryggingarfélög. Vilji fólk kanna réttarstöðu sína er fyrsta viðtal án endurgjalds. Unnt er að bóka viðtal í síma 520-2900.