Sýknað í Mjölnismáli
birt 10. apríl 2017
Fimmtudaginn 6. apríl s.l. sýknaði Hæstiréttur Íslands Árna Ísaksson og Mjölni íþróttafélag af því að bera óskipta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni manns sem hann kvaðst hafa orðið fyrir þegar hann féll í glímu við Árna í bardagahring í íþróttasal Mjölnis árið 2014.
Maðurinn var kominn í Mjölni að undirlagi vina sem voru að steggja hann og gera sér glaðan dag af því tilefni. Liður í skemmtidagskránni var að maðurinn myndi heyja glímu við vanan keppnismann.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Árni og Mjölnir bæru óskipta skaðabótaábyrgð á tjóni mannsins, Árni á grundvelli sakarreglunnar og Mjölnir á grundvelli reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Hæstiréttur féllst á sjónarmið Árna og Mjölnis að manninum hefði verið ljóst þegar hann gekk til leiksins að hin fyrirhugaða glíma væri hvorki keppni né kennsla heldur skemmtun sem krefðist líkamlegrar snertingar og hætta væri á að í slíkum átökum gætu menn slasast. Vísaði Hæstiréttur til þess að í íslenskum rétti hefðu lengi gilt reglur um áhættutöku sem ættu sér ótvíræða stoð í dómaframkvæmd á sviði skaðabótaréttar. Vísaði Hæstiréttur meðal annars til hinnar fornu lagaskrár og lögskýringarrits Íslendinga, Grágásar, Vígslóða 34. kafla og 13. kafla Mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1281. Taldi Hæstiréttur að maðurinn hefði fengið nokkrar leiðbeiningar frá Árna um hvernig hann skyldi bera sig að í leiknum. Hefði Árni í aðferðum sínum við þá fellu sem maðurinn taldi sig hafa slasast í borið sig forsvaranlega að og því yrði Árni ekki gerður ábyrgur fyrir afleiðingum þeirra meiðsla sem maðurinn kvaðst hafa orðið fyrir umrætt sinn. Að þeirri niðurstöðu fenginni kæmi heldur ekki til álita að Mjölnir bæri ábyrgð á meintu tjóni mannsins.
Dóm Hæstaréttar má lesa hér. Af hálfu Mjölnis íþróttafélags flutti málið Hlynur Halldórsson hrl. og af hálfu Árna Ísakssonar flutti málið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.
Landslög veita alhliða lögfræðiráðgjöf, m.a. ráðgjöf á sviði skaðabótaréttar. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl. (hildur@landslog.is).