Umferðarréttur akandi umferðar um eignarland.
birt 8. febrúar 2013
Ívar Pálsson hæstaréttarlögmaður á Landslögum hefur tekið saman eftirfarandi grein, sem ætlað er að varpa ljósi á meginreglur um umferðarrétt akandi um eignarland.
• ALMANNARÉTTUR SKV. LÖGUM UM NÁTTÚRUVERND
Í eignarréttarlegu tilliti er meginreglan sú að óheimilt er að fara um eignarland nema með samþykki landeiganda. Undantekning gæti verið frá þessu ef mælt væri um slíka heimild til handa almenningi í lögum. Í lögum um náttúruvernd nr. 44/1999 eru ákvæði um almannarétt til umferðar. Þar er sjónum beint að gangandi, hjólandi og ríðandi mönnum. Ekki er þar mælt fyrir um almannarétt til akandi umferðar. Almannaréttur til akandi umferð er því ekki fyrir hendi samkvæmt lögum um náttúrvernd.
• VEGALÖG
Um vegi er fjallað í fjallað í vegalögum nr. 80/2007. Eru vegir flokkaðir í III. kafla laganna í fjóra megin flokka; þjóðvegi, sveitarfélagsvegi, almenna stíga og einkavegi. Almenningi er heimil umferð um allar tegundir vega nema einkavegi án leyfis enda eru hinir vegaflokkarnir vegir sem eru gerðir og haldið við af opinberu fé. Veghaldara hinna opinberu vega þ.e. ríki eða sveitarfélaga er heimilt að fjarlægja muni af vegum á kostnað eiganda munanna. Veghaldara er líka heimilt að takamarka umferð um vegi til að takmarka skemmdir á vegum og tryggja greiða umferð.
Í 55. gr. laganna er fjallað um vegi, stíga, götutroðninga, sem ekki falla undir neinn vegaflokk. Þar er tekið fram að landeiganda sé heimilt að girða slíkan veg með hliði en hann megi ekki læsa hliðinu né hindra umferð um veginn nema með leyfi sveitarstjórnar.
Með vísan til framangreinds má segja að almenningi sé heimil umferð um alla vegi nema einkavegi.
• AFLAGÐIR VEGIR
Ef aflögðum vegum hefur ekki verið skilað til landeiganda, sbr. 4. mgr. 39. gr. vegalaga, við lagningu nýrra vega tilheyra þeir þeim sem áður átti veginn og gilda um þá sömu reglur.
• VEGIR OG STÍGAR SKV. SKIPULAGI
Í skipulagi t.d. aðalskipulagi eða deiliskipulagi, er oft gerð grein fyrir vegum og stígum. Það eitt og sér heimilar ekki umferð um eignarland nema stígarnir/vegirnir tilheyri sveitarfélaginu eða vegagerðinni. Hafi ekki verið samið við landeiganda eða svæði undir veg/stíg tekið eignarnámi er umferð um viðkomandi svæði ekki heimil akandi nema með leyfi landeiganda.
• HEFÐARRÉTTUR TIL UMFERÐAR
Hér verður ekki fjallað um hefðarrétt til umferðar, en vera kann að einstakir aðilar hafi öðlast slíka rétt til umferðar um eignarlönd annarra samkvæmt ákvæðum laga um hefð. Ætla má að slíkur umferðarréttur sé almennt sýnilegt ítak. Hefð til umferðar getur því skapast fyrir hefð á 20 árum.
***
Á grundvelli framangreinds eru meginreglur um umferðarrétt akandi eftirfarandi:
• Almenningi er heimilt að aka um alla vegi sem ekki eru einkavegir án leyfis landeiganda.
• Óheimilt er að aka um einkavegi nema með leyfi landeiganda.
• Allur akstur utan vega er óheimill nema með leyfi landeiganda (rétt að taka fram að akstur utan vega er almennt óheimill nema að uppfylltum skilyrðum náttúrverndarlaga um slíkan akstur).
Það athugast að frumvarp til nýrra laga um náttúrvernd eru nú til meðferðar á Alþingi. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt breytir það ekki framangreindum meginreglum.